Nemendur stjórna framboðsfundi í VA

Mynd: Austurfrétt/Gunnar
Mynd: Austurfrétt/Gunnar

Nemendur í félagsfræði efndu til framboðsfundar í VA þriðjudaginn 9. apríl. Fulltrúar sjö framboða mættu á fundinn sem var fjörugur en skipulagður undir stjórn Guðjóns Björns Guðbjartssonar og Bergsteins Pálssonar. Fyrst fengu frambjóðendur 5 mínútur hver til að kynna sig svara spurningu um stefnu framboðanna um tillegg íslendinga til þróunaraðstoðar  og síðan 3 mínútur til að svara spurningu um afstöðu til kynjakvóta. Að því loknu tóku við spurningar úr sal.

Það má segja að þarna hafi nemendurnir átt sitt fyrsta stefnumót við pólitíkina. Það voru engir fullorðnir í salnum til að frekjast að með gamlar klisjur. Spurningarnar voru markvissar og endurspegluðu heitustu álitamálin í þjóðfélaginu s.s. heilbrigðismál, umhverfismál, jafnréttismál og aðildarumsókn að Evrópusambandinu. 

Framboðin sem tóku þátt voru: Björt framtíð - Brynhildur Pétursdóttir, Dögun - Gísli Tryggvason, Framsóknarflokkurinn - Höskuldur Þórhallsson, Píratar - Aðalheiður Ámundadóttir, Samfylkingin - Kristján Möller, Sjálfstæðisflokkurinn - Ásta Kristín Sigurjónsdóttir og Vinstri hreyfingin grænt framboð - Steingrímur J. Sigfússon.

Þegar upp er staðið má segja að þessi fundur sýni hvernig nemendaverkefni geta birst í lifandi skólastarfi. Þeir Guðjón Börn og Bergsteinn voru með það verkefni í áfanganum að undirbúa þennan fund og halda hann. Hugmyndin að verkefninu kom frá þeim og síðan fengu þeir samnemendur í áfanganum til liðs við sig og eins nemendur úr kynjafræðiáfanga (KYN 103). Þannig var einnig um samþættingu námsgreina að ræða. Þegar komið er inn á svona fund þá leiða fáir hugann að því hve mikil vinna liggur á bak við hann í skipulagningu. Bréfaskriftir, símhringingar, tölvupóstar, fundir um skipulag og margt fleira gerir þetta að eins konar tímabundnu starfi þeirra sem standa í þessu. Sumt fer fram í kennslustundum en aðalatriðið er að þetta er mjög samfélagslega þroskandi.

Myndir:  Austurfrétt/Gunnar

1

2

3

4

5