Heil og sæl
Enn dregur til tíðinda. Þrátt fyrir að Covid veturinn verði ekki tími mestu nándarinnar í félagslegum samskiptum þá verður seint hægt að segja að hann ætli að verða tíðindalaus.
Á blaðamannafundi nú rétt í þessu voru boðaðar hertar samkomutakmarkanir sem taka gildi á morgun. Ný reglugerð um takmarkanir á skólahaldi er hins vegar ekki tilbúin en á vef heilbrigðisráðuneytis segir að hún verði kynnt í næstu viku.
Við skulum því leyfa helginni að líða í rólegheitunum og gefa okkur tíma til skipuleggja næstu skref. Í dag er ekki hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ný reglugerð komi til með að hafa á skólastarfið hjá okkur eða þá undanþágu sem skólinn fékk sl. miðvikudag.
Nemendur vil ég biðja að fylgjast með upplýsingum frá skólanum. Ef einhver breyting verður á fyrirkomulagi skólastarfsins á mánudag þá sendum við út upplýsingar um það eigi síðar en á hádegi á sunnudag. Þeir sem eiga reikninga frá mötuneyti í heimabanka eruð beðnir að bíða með að greiða reikningana þar til málin skýrast.
Vonum hið besta og höldum áfram að styðja vel hvert við annað. Höldum áfram að vanda okkur í sóttvörnum og fylgjum fyrirmælum – saman munum við klára þetta þó allar líkur séu á því að það verði gert í langhlaupi en ekki spretthlaupi.
Við í VA óskum ykkur öllum góðrar helgar,
skólameistari