Í morgun fóru nemendur í nýsköpunaráfanganum Hugmynd og hönnun í úrbótagöngu. Úrbótagangan er verkefni sem er á vegum Austurbrúar og er hluti af áfangastaðaáætlun Austurlands. 14 nemendur ásamt Birgi kennara örkuðu af stað í upphafi fyrsta tíma dagsins og gengu hring í bænum. Allir lögðu eitthvað í púkkið og líklega hafa orðið til á fjórða tug hugmynda að úrbótum fyrir bæinn sem var skilmerkilega skilað inn á vefinn urbotaganga.is. Það er afar góður árangur eftir klukkutímagöngu. Gangan féll afar vel að markmiðum áfangans sem er að nemendur séu læsir á umhverfi sitt, sjái tækifæri til úrbóta og komi með hugmyndir. Í seinni hluta áfangans munu nemendur síðan vinna að sinni bestu hugmynd. Það sem var einnig gott við gönguna var að þarna fengu nemendur raunverulegt verkefni til að leysa. Verkefni sem hefur áhrif á samfélagið.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn að göngu lokinni.