Síðastliðinn föstudag heimsótti Guðrún Schmidt, sérfræðingur hjá Landvernd, skólann og hélt hálfsdags námskeið fyrir nemendur á stúdentsbrautum. Námskeiðið bar heitið Okkar framtíðarsýn í átt að sjálfbærni og var þar fjallað um loftslagsmálin, sjálfbæra þróun og heimsmarkmiðin á mannamáli.
Voru málin sett í samhengi við daglegt líf nemenda með leikjum, hóp- og einstaklingsverkefnum auk samræðna. Rauði þráðurinn í námskeiðinu var valdefling nemenda og ekki síst hvernig breyta má áhyggjuástandi yfir í aðgerðaástand. Hvernig nemendur gátu ímyndað sér ákveðna óskastöðu eða framtíðarsýn og hvernig væri hægt að raungera hana.
Nemendur voru mjög virkir á námskeiðinu og vakti það þá til umhugsunar um málefnið sem varðar okkur svo sannarlega öll. Stefnt er að því að halda áfram á þessari braut í skólastarfinu og fá fleiri slík námskeið fyrir nemendur og starfsfólk.