Rafíþróttalið VA tekur í ár þátt í Framhaldsskólaleikum Rafíþróttasambands Íslands (FRÍS) og keppir þar í leikjunum Counter Strike 2, Rocket League og Fortnite. Þetta er í fyrsta skipti sem VA sendir lið til keppni á FRÍS en nú á vorönn er í fyrsta skipti boðið upp á rafíþróttaáfanga við skólann.
FRÍS fer fram á netinu á mánudögum og miðvikudögum í janúar og febrúar, undanúrslit verða sýnd í streymi á heimasíðu Rafíþróttasambandsins, www.Rafis.is, einnig eru nánari upplýsingar um FRÍS á facebook síðu Rafíþróttasambandsins og Framhaldsskólaleikanna.
Lið VA í Counter Strike skipað þeim Óliver Snæ Stefánssyni, Þorgeir Wuhitha, Júlíusi Sigurðssyni, Brynjari Dan Einarssyni og Baltasar Bóa Bjarkasyni vann lið Fjölbrautaskólans í Vestmanneyjum s.l. mánudag á sannfærandi hátt og þar með fyrsti sigur í sögu skólans í rafíþróttakeppni.
Sigurgöngu Baltasars var ekki lokið þar því hann ásamt Sebastian Nóa og Brynjari Heimi unnu Borgarholtsskóla 3-0 í Rocket league. Fortnite liðið náði sér ekki á strik og laut í lægra haldi fyrir liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ en þeir Brynjar Heimir, Anton og Óskar Beck lögðu sig alla fram og eiga heiður skilinn fyrir drengilega frammistöðu.
Æfingar VA fara fram í Austra húsinu á Eskifirði og kunnum við þeim hinar bestu þakkir fyrir samstarfið og notkunina á aðstöðunni.