Norðfirska hljómsveitin Dusilmenni komst í úrslit Músíktilrauna um síðustu helgi. Aðeins 10 hljómsveitir komust áfram í úrslitin og má því með sanni segja að um glæsilegan árangur sé að ræða. Hljómsveitinni er lýst sem lítilli hljómsveit úti á landi sem spilar rokk/ og eða þungarokk. Hljómsveitina skipa þeir Benedikt Arnfinnsson, Hlynur Fannar Stefánsson, Jakob Kristjánsson nemendur í Nesskóla og söngvarinn Skúli Þór Ingvarsson sem er nemandi í VA. Þeir eru á aldrinum 15-17 ára.
Aðspurður sagði Skúli að undankeppniskvöldið og úrslitakvöldið væru tvö bestu kvöld lífs síns. Þátttakan í Músíktilraunum sé mikilvægt skref sem opnar á fullt af tækifærum. Nú tekur við að spila á tónleikum með Guðmundi Gíslasyni, fyrrum SúEllen liða, um páskana og síðan verða fleiri gigg í kjölfarið.
Það verður gaman að fylgjast með þessari ungu og upprennandi hljómsveit í framtíðinni og við óskum þeim innilega til hamingju með frábæran árangur!
Hlusta má á lög Dusilmenna hér.