Frá Tæknideginum í fyrra.
Tæknidagur fjölskyldunnar 2017:
Segulskór, fílatannkrem og þolraunir ofurhlauparans!
Hinn árlegi Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 7. október. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa.
Tæknidagur fjölskyldunnar er orðinn fastur liður í viðburðaflóru haustsins hér eystra. Hafa aðsóknarmet verið slegin í hvert skipti en um 1000 manns sóttu hann í fyrra og kynntu sér það helsta sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða þegar viðkemur tækni, vísindum, nýsköpun, verkmennt og þróun. Sem fyrr eru það Verkmenntaskóli Austurlands og Austurbrú ses. sem taka höndum saman og skipuleggja daginn.
Markmiðið með Tæknidegi fjölskyldunnar er að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í okkar nærumhverfi og varpa ljósi á þau fjölbreyttu störf á þessum vettvangi sem unnin eru á svæðinu. Um leið er sýnt hvað tækni og vísindi geta vera skemmtileg og „venjulegt“ fólk mætir á Tæknidaginn og framkvæmir skemmtilegar vísindatilraunir.
Tæknidagur fjölskyldunnar 2017 verður með svipuðu sniði og áður. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi sýnir allskyns tæknilausnir og nýsköpun. Þar má nefna að Matís býr til fílatannkrem og Náttúrustofa Austurlands svarar því hvort hreindýr geti sent SMS. Gestir fá að kynnast austfirskum bjórverksmiðjum, þrívíddarprentun í Fab Lab Austurland, nýjum körfubíl hjá Launafli og austfirskum byssuskeftum. Þá fá gestir að prófa reykköfun hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar og Þorbergur Ingi Jónsson, ofurhlaupari, mætir og sýnir hvernig tæknin er virkjuð til æfinga í háfjallahlaupi. Þorbergur er meðal bestu utanvegahlaupara heims og svo vill til að hann er líka Austfirðingur og tæknimenntaður. Hann verður með tæki og tól sem gestir getað prófað og komist þannig nálægt því að upplifa hvernig er að hlaupa í 3000 metra hæð.
Þá verður Ævar vísindamaður á staðnum og sýnir börnum á öllum aldri inn í töfraheim vísindanna. Hann mun yfirtaka svæðið með slími, segulskóm og ryksuguhönskum!
Allt þetta og margt, margt fleira á Tæknidegi fjölskyldunnar þann 7. október klukkan 12:00 – 16:00, húsnæði Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.
Nánari upplýsingar um Tæknidag fjölskyldunnar veitir Lilja Guðný Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá VA, í síma 477 1620 / 848 3607 / lilja@va.is
Tæknidagur fjölskyldunnar á Facebook