Síðustu kennsluvikur og námsmat í annarlok

Ágætu nemendur og forráðafólk

Sl. föstudag varð ljóst að enn um sinn verði litlar sem engar tilslakanir gerðar á sóttvarnareglum sem nýtast áfangaskólum til aukinnar staðkennslu. Í ljósi þess hefur sú ákvörðun hefur verið tekin að engin skrifleg lokapróf muni fara fram í húsum VA í áföngum sem hafa verið í fjarkennslu að mestu eða öllu leyti frá því í byrjun október. Mögulega kallar þessi ákvörðun á einhverjar breytingar á námsmati áfanga og munu kennarar upplýsa nemendur um breytingar ef til kemur. 

Undantekningar frá ofangreindu:

  • Heimilt er að halda lokapróf í húsum VA í áföngum sem eru í próftöflu og hafa verið kenndir í staðkennslu alla önnina enda tilheyra próftakar sameiginlegum sóttvarnahólfum. Hér er um að ræða lokapróf í háriðndeild, rafiðndeild og vélstjórn.

Ljóst er að áframhaldandi samkomutakmörk gera okkur ekki kleift að taka nemendur á stúdentsbrautum aftur inn í skólann í hefðbundna kennslu, a.m.k. næstu 2-3 vikurnar. Eftir þann tíma eru einfaldlega of fáir kennsludagar eftir á önninni til að forsvaranlegt sé að gera kúvendingar á kennsluformi. Því verða þeir áfangar sem nú eru í fjarnámi kenndir með slíku formi út önnina.

Nemendur á stúdentsbrautum verða boðaðir sérstaklega á fund með stjórnendum og námsráðgjafa þriðjudaginn 17. nóvember kl. 12:00 til að ræða málin. Fundarboðið mun berast nemendum í tölvupósti og eru þeir hvattir til að mæta og taka þátt í samtalinu.

Kennslu á námsbrautum sem nú eru í húsi (iðnnám, starfsbraut og framhaldsskólabraut) verður haldið áfram með sama hætti og verið hefur undanfarið.

Í bygginga- og mannvirkjadeild verður frá og með fimmtudeginum 19. nóv. sú breyting að áfangi í grunnteikningu á 1. önn verður nú aftur kenndur í staðnámi til fulls. Aðrir fagbóklegir áfangar á 1. önn í deildinni (efnisfræði / framkvæmd og vinnuvernd) verða áfram kenndir í fjarnámi.

Í vélstjórnarnámi verða fagbóklegir áfangar kenndir með sama hætti og verið hefur (þ.e. vélstjórn kennd í staðnámi, vélfræði og hönnun skipa í fjarnámi).  

Upplýsingar um fyrirkomulag dreifnáms verða sendar til nemenda fyrir dagslok á morgun, þriðjudag.

Mötuneyti verður áfram opið vistarbúum og nemendum á starfsbraut, með sama fyrirkomulagi og verið hefur undanfarið.

  • 12:00 - 12:30 Starfsbraut
  • 12:30 - 13:00 Íbúar á heimavist

Vinnustofudagur 8. desember verður í gegnum Bláa hnöttinn hjá þeim kennurum sem eru að kenna í fjarnámi. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða sendar til nemenda þegar nær dregur.

Við minnum á að miðvikudagurinn 18. nóvember er námsmatsdagur / gulur dagur og fimmtudaginn 19. nóvember verða síðustu vörður annarinnar birtar nemendum.

Nú styttist óðum í lok haustannar. Ég treysti því að ráðstafanir sóttvarnayfirvalda muni duga til þess að við getum um frjálsara höfuð strokið um jólin og notið aukinnar samveru með vinum og ættingjum. Þið hafið öll staðið ykkur frábærlega í þessum krefjandi aðstæðum og seigla ykkar er aðdáunarverð. Ég vil hvetja ykkur nemendur til að styðja hver við annan og nýta allar þær leiðir til samvinnu sem bjóðast þrátt fyrir allt. Ekki hika heldur við að hafa samband við okkur, við erum til staðar fyrir ykkur og skólinn er ekki lokaður þrátt fyrir ákveðnar hömlur. Með góðum sóttvörnum er hægt að leita til okkar á staðnum auk allra þeirra fjarmöguleika sem bjóðast.

Við höldum áfram saman því við #getumþettasaman

Með góðri kveðju,

skólameistari