Síldarvinnslan styrkir Verkmenntaskólann

Ljósm. Smári Geirsson
Ljósm. Smári Geirsson

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. fimmtudag tilkynnti Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður að stjórnin hefði ákveðið að veita Verkmenntaskóla Austurlands myndarlegan styrk til að koma upp aðstöðu og búnaði vegna fyrirhugaðs náms í vélstjórn við skólann.
Elvar Jónsson skólameistari veitti styrknum móttöku og þakkaði þann skilning og áhuga sem Síldarvinnslan sýndi skólanum og þeim verkefnum sem hann er að fást við. Fram kom í máli Elvars að tengsl skólans við atvinnulífið væru ómetanleg og þá skipti ekki síst máli tengslin við hin öflugu sjávarútvegsfyrirtæki á starfssvæði skólans. Þá upplýsti Elvar að á þessu skólaári væri unnið að undirbúningi þess að unnt yrði að hefja vélstjórnarnám við skólann en slíkt nám yrði skipulagt í tengslum við nám í vélvirkjun. Fyrirhugað er að nám í vélstjórnarfræðum hefjist haustið 2014 og þá verður allur nauðsynlegur vél- og tæknibúnaður sem nota þarf við kennsluna að vera til staðar. Slíkur búnaður er dýr og því kemur styrkur Síldarvinnslunnar að góðum notum (svn.is).

Heimild. svn.is. http://svn.is/frettir/frwttasafn/425-sildarvinnslan-styrkir-verkmenntaskolann.

Þess má geta að Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) veitti skólanum sambærilegan styrk í vor og því miðar vel áfram í því að fjarmagna fyrirhugað velstjórnarnám.