Skólabyrjun

Nú er að hefjast hjá okkur ný önn. Skólinn byrjar samkvæmt stundatöflu á morgun miðvikudaginn 5. janúar.

Stundatöflur hafa verið opnaðar í INNU, við hvetjum ykkur til að kíkja á þær. Stundataflan getur tekið smávægilegum breytingum í upphafi annarinnar og því mikilvægt að gef því auga. Við gerðum svolitlar breytingar á formi töflunnar frá haustönninni, skólinn mun nú hefjast kl. 8:20 og vera lokið 15:45, en þó munu einhverjir verklegir áfangar vera til kl. 16:40. Er þetta m.a. gert til að stundataflan falli betur að leiðakerfi almenningssamgangna í Fjarðabyggð. Tímatöflu almenningssamgangna má sjá hér.

Breyting verður jafnframt á fyrirkomulagi vinnustofa. Heimastofur í þeirri mynd sem þær voru á síðustu önn falla niður, en kl. 12:45 á þriðjudögum til föstudaga verður stutt heimastofa þar sem nemendur skipuleggja sig fyrir vinnustofur sem eftir eru dagsins.

Covid veiran ætlar að fylgja okkur eitthvað áfram. Enn og aftur segjum við að nú sem aldrei fyrr er áríðandi að við gætum að persónulegum sóttvörnum, nota grímu, þvo hendur reglulega og spritta. Hjálpumst að við að sótthreinsa borð og stólbök í kennslustofum. Grímuskylda verður áfram á göngum skólans og í kennslustofum þar sem ekki er hægt að halda 1 metra fjarlægð. Okkur er mikið í mun að geta haldið skólastarfi sem eðlilegustu, en þó er viðbúið að einhver röskun verði ef að stórir hópar nemenda og starfsfólks veikist eða lendir í sóttkví.

Við minnum einnig á að ef fundið er til einkenna eða óvissa er um einkenni þá á að panta tíma í sýnatöku og halda sig heima uns niðurstaða kemur úr henni.