Verkmenntaskóli Austurlands var settur í morgun í blíðskaparveðri.
Nýr skólameistari VA, Lilja Guðný Jóhannesdóttir, ávarpaði nemendur og starfsfólk og bauð alla velkomna til starfa. Farið var yfir breytingar í starfsmannahópnum en í VA ríkir stöðugleiki í starfsmannamálum sem er gott fyrir skólastarfið. Einn nýr kennari hefur þó störf við skólann nú í haust, Þuríður Ragnheiður Sigurjónsdóttir, sem mun kenna í rafiðndeild og á nýsköpunar- og tæknibraut og er frábær viðbót við öflugan kennarahóp skólans.
Skólameistari ræddi um mikilvægi þess að allir störfuðu vel saman í skólanum - allir geti eitthvað en enginn geti allt. Því sé afar mikilvægt að við leggjum áherslu á að starfa öll vel saman - því með sameinuðum kröftum standi okkur allir vegir færir.
Í vetur er er eitt af markmiðum okkar í VA að flagga grænfánanum. Í því samhengi minnti skólameistari á að grænfánaverkefnið væri verkefni okkar allra; nemenda, starfsmanna og nærumhverfis. Við skólann er starfandi umhverfisnefnd sem Gerður Guðmundsdóttir, náttúrufræðikennari, stýrir. Sjá má merki þessa starfs um leið og gengið er inn í skólann en mikil áhersla er lögð á að flokka allan úrgang sem fellur til í skólanum. Hvatti skólameistari nemendur að taka allir sem einn virkan þátt í þessu starfi. Markmiðið með grænfánaverkefninu er að auka umhverfismennt og menntun til sjálfbærni og er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi.
Skólameistari sagði frá starfsemi nemendafélagsins, NIVA, sem stendur fyrir hinum ýmsu viðburðum fyrir nemendur skólans. Nú í skólabyrjun verður kosið í nýtt nemendaráð og voru nemendur hvattir eindregið til að taka þátt í starfi félagsins og bjóða sig fram til starfa. Enda starf að félagsmálum bæði skemmtilegt og þroskandi. Þó skólinn standi að sjálfsögðu við bakið á nemendafélaginu þá stendur starfsemi þess í raun og fellur með nemendum. Því er þátttaka nemenda lykilatriði, ekki eingöngu með því að starfa í nemendaráði heldur, og ekki síður, með því að vera virk í viðburðum sem félagið stendur fyrir.
Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi umsjónarkennara í VA og er það liður í því markmiði að efla deildarstjórastarf við verknámsdeildir skólans. Umsjónarkennarar í vetur verða:
- Bygginga- og mannvirkjagreinar / húsasmíði – Jón Þorláksson
- Háriðngreinar – Svanlaug Aðalsteinsdóttir
- Málmiðngreinar / vélvirkjun / vélstjórn – Guðmundur Arnar Guðmundsson
- Rafiðndeild / rafvirkjun – Hafliði Hinriksson
- Framhaldsskólabraut – Eydís Ásbjörnsdóttir
- Starfsbraut – Margrét Perla Kolka Leifsdóttir
- Félagsvísindabraut, náttúruvísindabraut, nýsköpunar- og tæknibraut og opin stúdentsbraut – Ingibjörg Þórðardóttir – Ágúst Ingi Ágústsson mun taka við umsjón hluta þessara nemenda þegar hann kemur til baka úr fæðingarorlofi
- Fjarnemar – Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir