Marta, Kristín og Óskar Mynd: Gunnar Gunnarsson
Söngkeppnin Barkinn fór fram í sal Menntaskólans á Egilsstöðum föstudaginn 19. febrúar síðastliðinn. Keppnin er liður í forvali fyrir söngkeppni framhaldsskólanna og að þessu sinni tóku nemendafélög VA og ME ákvörðun um að halda sameiginlega keppni. Sex atriði kepptu frá hvorum skóla og var verðlaunað fyrir fyrstu þrjú sætin í hvorum skóla. Úrslit VA fóru þannig að í 1. sæti varð Kristín Joy Víðisdóttir við undirspil Óskars Sveinssonar og Mörtu Guðlaugar Svavarsdóttur, í 2. sæti urðu Óskar Sveinsson og Bragi Örn Ingólfsson, í 3. sæti urðu Jarþrúður Hulda Atladóttir og Margrét Kolka Hlöðversdóttir. Að lokinni keppni var haldinn dansleikur á Kaffi Egilsstöðum. Rúmlega 50 manns fóru á keppnina og ballið frá VA en nemendfélag VA, NIVA bauð upp á rútu fyrir nemendur. Kvöldið gekk að mestu leiti vel og áfallalaust fyrir sig og voru nemendur VA til fyrirmyndar en 31 nemandi blés í áfengismæli og sýndu fram á að þeir voru edrú. Þessir nemendur eru þar með komnir í hinn ört stækkandi og vinsæla edrúpott, en dregið verður úr honum í lok vikunnar.