Frá Tæknidegi fjölskyldunnar 2013
Tímasett dagskrá: http://www.austurbru.is/static/files/PDF/2014/dagskra_takenidags_timasett.pdf
Fréttatilkynning
Tæknidagur fjölskyldunnar 2014:
Nýjasta tækni og vísindi á Austurlandi
Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 8. nóvember. Í ár markar þessi dagur
tímamót í menntunar- og nýsköpunarsögu Austurlands því „Fab Lab Austurland“ verður formlega opnað.
Þetta er í annað sinn sem Austurbrú ses. og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja dag sem vekur athygli á fjölbreyttum,
heillandi og áhugaverðum viðfangsefnum í iðnaði, tækni og raunvísindum í fjórðungnum.
Tæknidagurinn í fyrravor tókst með eindæmum vel en um fimm hundruð manns heimsóttu skólann og óhætt að segja að
mörgum hafi komið á óvart hversu spennandi starfstækifæri eru í boði fyrir ungt fólk sem ákveður að leggja fyrir sig
iðn,-tækni og/eða vísindanám. Eitt meginmarkmiðið með Tæknidegi fjölskyldunnar er einmitt að vekja athygli á mikilvægi
slíkrar menntunar fyrir samfélagið okkar.
Tæknidagur fjölskyldunnar 2014 verður með svipuðu sniði og í fyrra. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi sýnir allskyns
tæknilausnir, gestir fá að kynnast stjörnum himingeimsins og forritunarsmiðju, þeir fá að fylgjast með krufningu á ref, vísindatilraunum
leikskólakrakka svo ekki sé minnst á Vísinda-Villa sem fer á kostum eins og hans er von og vísa. Þá fá gestir að sjá hvernig
gítarar eru smíðaðir, hvernig varmadælur og vélarrúmshermar virka og margt, margt fleira.
Tæknidagurinn í ár markar tímamót í menntunar- og nýsköpunarsögu fjórðungsins því „Fab Lab
Austurland“ verður formlega opnað á þessum degi. Fab Lab (Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til
alla skapaða hluti. Hún gefur fólki tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með
því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Í starfsemi Fab Lab smiðjunnar verður sérstök
áhersla lögð á að auka og efla áhuga ungmenna á tæknimenntun sem og að virkja nýsköpunarkraft unga fólksins í samstarfi
við skólana á svæðinu. Starfsemin er þó ekki eingöngu ætluð nemendum því einstaklingar og frumkvöðlar geta einnig
fengið aðstoð við hönnun og framleiðslu í smiðjunni.
Tæknidagur fjölskyldunnar hefst klukkan 12:00 og eru allir velkomnir.
Myndatexti: Börn gera efnafræðitilraunir á Tæknideginum í fyrra.
Nánari upplýsingar um Tæknidag fjölskyldunnar veita Elvar Jónsson, skólameistari VA, í síma 869 5494 og Lilja Guðný
Jóhannesdóttir hjá Austurbrú í síma 848 3607.