Tæknidagurinn er fjölskyldudagur
Nýjasta tækni og vísindi á Austurlandi
Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 6. október. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Tilefnið verður jafnframt notað til að opna glænýja suðuaðstöðu í verkkennsluhúsi skólans og mun mennta- og menningarmálaráðherra klippa á borðann með skólameistara VA.
Þetta er í sjötta sinn sem Austurbrú og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja Tæknidaginn. Markmiðið er sem fyrr að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í okkar nærumhverfi og þannig varpa ljósi á fjölbreytt störf á þessum vettvangi sem unnin eru á svæðinu. Aðsókn á Tæknidaginn hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og er áætlað að um 1500 gestir hafi komið í fyrra.
Viðburðir verða í þremur byggingum skólans: Í verknámshúsi, bóknámshúsi og í íþróttahúsi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi mun sýna ýmis konar tæknilausnir. Gestir fá t.d. að kynnast FabLab Austurlandi sem einmitt var opnað á Tæknidegi fjölskyldunnar árið 2014, þeir geta fengið að prófa málmsuðu í sýndarveruleika, vinna í vélarrúmshermi, þeir geta spreytt sig á eldsmíði, skoðað stjörnur og vetrarbrautir í sérsmíðuðu stjörnutjaldi, smakkað „götumat“, leikið sér í „landslagssandkassa“ og hægt verður að prófa „stauraskó“ frá RARIK! Þá má nefna að silfurhafar í heimsmeistarakeppni yngri en 18 ára í vélmennaforritun verða á svæðinu. Vélmennið ,,Þetta reddast” verður til sýnis og gerir ýmislegt skemmtilegt.
Á Tæknideginum verður tækifærið nýtt og ný suðuaðstaða skólans formlega vígð en unnið hefur verið að henni hörðum höndum síðustu mánuði. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun klippa á borðann með nöfnu sinni Lilju Guðnýju Jóhannesdóttur, skólameistara VA. „Með þessu getum við boðið nemendum upp á fullkomna suðuaðstöðu með öllum þeim öryggiskröfum sem gerðar eru,“ segir Lilja Guðný og fullyrðir að um byltingu sé í ræða í kennsluaðstöðu skólans. Sjón sé sögu ríkari. Hin nýja aðstaða geri skólanum einnig kleift að taka við fleiri nemendum með skipulögðum hætti.
Aðgangur á Tæknidag fjölskyldunnar er ókeypis og hefst dagskráin kl. 12 og lýkur kl. 16.
Nánari upplýsingar um Tæknidag fjölskyldunnar veita Lilja Guðný Jóhannesdóttir, skólameistari VA, í síma 477 1620 / 848 3607 / lilja@va.is og Hafliði Hinriksson, kennari og deildarstjóri, í síma 869 2721 / haflidi@va.is