Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í sjöunda sinn á laugardaginn var. Líkt og gerist oft á Íslandi var veðrið aðeins að stríða okkur þar sem nokkur atriði féllu niður vegna þess að ekki var flogið frá Reykjavík. Veðrið var hins vegar með ágætum í Neskaupstað og streymdi fólk að.
Dagurinn hófst á Austurlandsmóti í rafsuðu þar sem Þorgrímur Jóhann Haraldsson starfsmaður vélsmiðjunnar Hamars á Eskifirði bar sigur úr býtum. Þegar formleg dagskrá hófst kl. 12 höfðu allir þátttakendur stillt sér upp og dreifðust þeir afar vel um svæðið.
Í bóknámshúsi var fjöldi atriða þar sem meðal annars var hægt að gæða sér á síld, skoða listaverk, njóta kvikmyndasýninga, prófa tækni úr grunnskólunum, vaða reyk og fylgjast með Dodda kryfja. Fjölmörg börn eyddu einnig töluverðum tíma í landslagssandkassanum.
Í verknámshúsi var allt á fullu. Fab-labið var keyrt linnulaust, fantasíusýning hárdeildarinnar var í trésmíðadeildinni og þar voru nemendur að auki að flétta og greiða börnum. Komu mörg börnin til baka með alls kyns liti í hárinu. Í málm- og vélgreinadeild og rafdeild var allt á fullu. Þar voru m.a. fulltrúar Fagkvenna og Rafmenntar.
Í íþróttahúsinu var fjöldi fyrirtækja að kynna starfsemi sína, nemendafélagið var með kaffihús á efstu hæðinni og gestir gátu prófað ýmislegt. T.d. voru margir sem bjuggu til sín eigin vasaljós hjá Vísindasmiðju Háskóla Íslands.
Á útisvæði á milli húsanna var hægt að skoða heimatilbúið háfjallahjólhýsi, hægt var að prófa að slökkva eld með slökkvitæki og skoða slökkviliðs- og sjúkrabíla. Bíll var einnig klipptur í sundur og gátu gestir því fylgst með slökkviliði að störfum.
Dagurinn var í heild alveg frábær og sneru allir heim glaðir í bragði. Við notum tækifærið hér og þökkum Austurbrú, sem sér um skipulagningu með okkur, sýnendum, Hljóðkerfaleigu Austurlands, starfsfólki og nemendum fyrir sitt framlag. Auk þess styrktaraðilum dagsins, Síldarvinnslunni, Sún, Alcoa-Fjarðaál, Eimskip-Flytjanda, Sesam-brauðhúsi og Fjarðabyggð. Án alls þessa yrði Tæknidagurinn ekki að veruleika.
Sjáumst að ári!