Tæknidagur fjölskyldunnar á laugardaginn

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 5. apríl. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, nýsköpun og þróun á Austurlandi og er dagskráin sniðin að öllum aldurshópum. Þetta er í tíunda sinn sem Tæknidagurinn er haldinn.

Nú sem áður verður margt um að vera á Tæknideginum og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sýna starfsemi sína og lögð er áhersla á að gestir sjái hvernig tækni- og vísindaþekking nýtist fyrirtækjum í alls konar starfsgreinum.

Viðburðir verða í þremur byggingum: Í íþróttahúsinu í Neskaupstað og í verknáms- og bóknámshúsum VA.

Vísindasmiðja HÍ og HA verða á staðnum með ýmiskonar þrautir og uppgötvanir fyrir alla fjölskylduna en í Vísindasmiðju HA verður hægt að byggja úr lýsandi legókubbum, setja saman róbóta og forrita Blue-bot og í Vísindasmiðju HÍ verða ýmsar skemmtilegar tilraunur s.s. teikniróla, þrautir, hljóðtilraunir og margt fleira. 

Margt fleira verður í boði, Doddi kemur að sjálfsögðu í heimsókn og kryfur með okkur dýr í stofu 1, hægt verður að fara inn í sýndarveruleika með Gunnarsstofnun, siglingahermirinn verður á sínum stað þar sem gestir og gangandi geta siglt um heimsins höf. Einn elsti rafbíll landsins verður á staðnum þar sem hægt er að fylgjast með uppgerð og uppfærslu. Slökkvilið Fjarðabyggðar mun leyfa gestum að slökkva eld og sýna að auki slökkviliðs- og sjúkrabíl, Tandraberg mun kynna sína starfsemi á bílaplani VA. HSA verður með heilsufarstékk og nemendur í nýsköpunarkeppni VA og Matís munu kynna sínar hugmyndir. Fossberg sýnir nýjustu tækni í málmsuðu og í rafdeildinni verður hægt að sjá hvernig sviðsljósum er stjórnað.  Sprengju Kata kemur og verður með efnafræðitilraunir ásamt því að hægt verður að kynna sér ýmsar iðngreinar og möguleika sem nám í þeim færir. Hér má sjá lista yfir þau atriði sem verða með okkur á Tæknidaginn www.taeknidagur.is 

Einnig mun 9. bekkur Nesskóla verða með kaffisölu í matsalnum, sem hluti af fjáröflun bekkjarins fyrir skólaferðalagi þar sem tilvalið er að setjast niður og fá sér kaffi og með því.

Það er Verkmenntaskóli Austurlands sem stendur að Tæknideginum og nýtur til þess stuðnings frá Alcoa, SÚN, Síldarvinnslunni, Landsvirkjun, Fjarðabyggð og Sparisjóði Austurlands. Dagskráin hefst kl. 12 og lýkur kl. 16. Við hlökkum til að eiga góðan dag með gestum okkar.