Í dag komu nemendur og starfsfólk saman í nýja salnum og fögnuðu þremur atburðum. 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu en dagurinn var valinn til þess að fá afhentan þriðja Grænfána skólans. Einnig var því fagnað að á árinu lauk skólinn fimm grænum skrefum.
Nemendur skólans voru í aðalhlutverki á athöfninni. Þau Arnór Berg Grétarsson og Ingibjörg Ásdís Heimisdóttir, fulltrúar í umhverfisnefnd, stýrðu athöfninni og fjallaði Ingibjörg um umhverfisstarf skólans.
Grænfánaverkefnið hefur verið í gangi síðustu ár í skólanum og markmið þess er að stuðla að sjálfbærni og umhverfisvernd, þar sem byggt er á lýðræðismenntun og getu til aðgerða. Skólinn setur sér markmið fyrir hvert tveggja ára tímabil og ef hann nær markmiðum sínum fær hann að flagga Grænfána. Eins og áður sagði er þetta þriðji Grænfáni skólans. Í dag má segja að umhverfismál séu orðin órjúfanlegur hluti af menningu skólans. Sem dæmi má nefna flokkun á rusli, miðar um að slökkva ljós, fataskiptasláin o.fl. Verkefnið græn skref hefur stutt við þetta og hafa ýmsar aðgerðir þaðan komið til framkvæmda, s.s. mæling á matarsóun, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og hjólaskýli.
Þá steig Guðrún Schmidt, fulltrúi Landverndar á stokk, flutti ávarp og afhenti fulltrúum nemenda í umhverfisnefnd Grænfánann og viðurkenningarskjal.
Eins og áður sagði var dagur íslenskrar tungu valinn fyrir afhendingu Grænfánans en hann er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Jónas var skáld og náttúrufræðingur og mörg ljóð hans fjalla um íslenska náttúru. Í tilefni dagsins fluttu nemendur ljóð. Anna Móberg Herbertsdóttir Zoéga flutti ljóðið Ó, þú jörð sem Jónas samdi árið 1844. Því næst flutti Dagur Þór Hjartarson ljóðið Topptíu fossar eftir Jökuldælinginn Ingunni Snædal. Boðskapur og efni ljóðanna átti sérstaklega vel við daginn.
Í lok athafnarinnar kom Pjetur St. Arason, kennari, á svið og fór yfir úrslit í kosningu á fallegasta orðinu á íslensku. Hugmyndum var safnað á Tæknidegi fjölskyldunnar þann 1. október sl. og í kjölfarið var sett upp skoðanakönnun með þeim hugmyndum sem komu. Alls bárust um 500 atkvæði og fór það svo að fallegasta orðið í íslensku var orðið Móðurást.
Eftir athöfnina var öllum boðið upp á tertu og kaffi. Var um að ræða tvær tertur, önnur með Grænfánamerkinu og hin með merki grænna skrefa.
Til hamingju með daginn öll!
Hér undir má finna myndir frá deginum