Í dag er Dagur íslenskrar náttúru. Í tilefni af því voru settir niður Umhverfisdagar á skóladagatal ársins þann 15. og 16. september. Dagarnir voru fyrst haldnir á síðasta skólaári og voru þá tengdir við Kærleiksdaga sem eru á vorin en nú urðu þetta sérstakir dagar.
Á umhverfisdögunum var fataskiptasláin uppfærð, sérstökum sjónum var beint að flokkun á rusli og allir nemendur fengu kynningu á umhverfismálum innan skólans. Þau Gerður umhverfisfulltrúi og Birgir gæða- og verkefnastjóri héldu kynninguna en hún fjallaði um umhverfisverkefni innan skólans, Grænfána og Græn skref. Einnig fóru þau yfir flokkun á rusli, margt í þeim efnum hefur verið gott en það er alltaf tækifæri til þess að bæta sig.
Auk þess var nemendum sýnt erindi Tinnu Hallgrímsdóttur frá 20 ára afmælisráðstefnu Grænfánans sem var í vor en það fjallar um hvort grænfánastarf skipti máli og er nemendum þar bent á ýmsar leiðir til þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt.
Einnig var flokkunarátak sett af stað þar sem nemendum voru birtar myndir úr ruslatunnum í skólanum, bæði það sem er gott og það sem betur má fara.
Voru dagarnir mjög vel heppnaðir og verða vonandi fastur liður í skólastarfinu á hverju hausti.