Stundatöflur og fyrirkomulag náms og kennslu á vorönn verður með talsvert breyttum hætti frá því sem verið hefur. Breytingin er liður í viðleitni skólans til að tryggja sem mest staðnám á önninni fyrir alla nemendur þrátt fyrir samkomutakmarkanir.
Til að undirbúa þessar breytingar verður upphafi skólastarfs á önninni frestað frá því sem áætlað var. Uppfært skóladagatal má finna á heimasíðunni.
Mánudagur 4. janúar kl. 10:00
Þriðjudagur 5. janúar
- Opnað fyrir stundatöflur í INNU
Föstudagur 8. janúar kl. 10:00 – 12:00
- Fræðsla um breytt fyrirkomulag náms og kennslu í dagskóla o.fl. (skyldumæting)
Mánudagur 11. janúar kl. 8:30
- Kennsla hefst skv. stundaskrá
Til að tryggja staðnám að eins miklu leyti og mögulegt er verður gerð breyting á fyrirkomulagi náms og kennslu með þeim hætti að hefðbundnum ,,áfangatímum“ verður fækkað og vinnustofum fjölgað umtalsvert. Þessi breyting krefst mikillar skipulagningar af hálfu nemenda og verður áhersla lögð á að styðja vel við nemendur í því ferli. Eins og fram kemur hér fyrir ofan þá verða nemendur fræddir um þetta breytta fyrirkomulag á fyrsta skóladegi annarinnar. Því er mjög mikilvægt að allir nemendur mæti þann 8. janúar.
En nú er tími til að hlaða batteríin í góðu jólaleyfi.
Við starfsfólk VA óskum nemendum okkar og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Nú er árið 2020 senn á enda – og kemur sem betur fer ekki aftur. Með hækkandi sól gerum við ráð fyrir því að hamlandi og títtrædd veira verði hrakin á brott. Við erum afar stolt af nemendum okkar, hvernig þeir hafa með kjarki og dugnaði tekist á við erfiðar aðstæður í námi sínu undanfarið ár. Framtíðin er björt og við #klárumþettasaman
Með jólakveðju,
skólameistari