Útskriftarferð starfsbrautar 2017

Föstudaginn 5. maí síðastliðinn skelltu nemendur og kennarar á starfsbraut VA sér í skemmtilega dagsferð í Fljótsdalinn. Þetta er annað árið í röð sem útskriftarnemar brautarinnar eru kvaddir með þessum hætti. Í fyrra styrktu starfsmenn Fjarðaráls brautina í gegnum Actionverkefnið og nýtist styrkurinn í nokkrar slíkar útskriftarferðir.

Í ferðinni voru söfn Snæfellsstofu og Skriðuklausturs skoðuð með leiðsögn. Ferðalangar nutu hádegisverðarhlaðborðs Skriðuklausturs og veðurblíðunnar í Trjásafni Hallormsstaðarskógar. Þar var farið í leiki, sykurpúðar grillaðir, spilað á gítar og sungið. Ferðin endaði í kvöldmat á Egilsstöðum.