VA hlýtur Íslensku menntaverðlaunin

Á myndinni má sjá Birgi Jónsson og Eydísi Ásbjörnsdóttir ásamt Sigurði Hannessyni framkvæmdastjóra S…
Á myndinni má sjá Birgi Jónsson og Eydísi Ásbjörnsdóttir ásamt Sigurði Hannessyni framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins við afhendingu verðlaunanna.

Verkmenntaskóli Austurlands hlaut í dag Íslensku menntaverðlaunin 2024 í flokki iðn- og verkmenntunar fyrir að efna til samstarfs við grunnskólana í Fjarðabyggð um framboð á fjölbreyttum verklegum valgreinum.

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins afhenti fulltrúum VA, þeim Eydísi Ásbjörnsdóttur skólameistara og Birgi Jónssyni aðstoðarskólameistara verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þar sem forseti Íslands hélt móttöku fyrir bæði einstaklinga og stofnanir sem tilnefnd voru til verðlaunanna í ár.

Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skólastarf, framúrskarandi kennslu, hvatningarverðlaun, framúrskarandi þróunarverkefni og framúrskarandi iðn- eða verkmenntun, sem féll sem fyrr segir, í skaut VA þetta árið.

Verkefnið hefur staðið frá árinu 2021 þar sem VA hóf að bjóða 9. og 10. Bekkingum allra grunnskóla í Fjarðabyggð 32 kennslustundir á skólaári í iðn- og starfsnámsgreinum að eigin vali. Áhugi var á því innan grunnskólanna í Fjarðabyggð að nemendur hefðu fleiri tækifæri til þess að kynnast fjölbreyttum iðn- og verkgreinum og fyrir VA var þetta jafnframt gott tækifæri til að kynna grunnskólanemendum í nærumhverfinu skólann sem og að stuðla að fjölgun nemenda í iðn- og starfsnámi. Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði og eins fékk það styrk frá Alcoa, auk stuðnings frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Jákvæð afleiðing verkefnisins er m.a. sú að þarna koma saman nemendur úr allri Fjarðabyggð sem þjappar þeim hópi ungmenna saman og ýtir undir samkennd þeirra á milli. Mikil ánægja hefur verið með verkefnið frá upphafi og hefur það skilað aukinni meðvitund um iðn- og starfsnám auk þess sem aðsókn hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár.

Meðal námskeiða sem nemendum hefur verið boðið að taka eru Fab Lab, húð og hár, myndbandsgerð, listaakademía, trésmíði, rafmagnsfræði, málm- og véltækni og bifreiðar. Hver nemandi velur sér tvær greinar og fá nemendur alla jafna þær greinar sem þau kjósa helst.