VA og Comenius í Þýskalandi.

Gamla borgarhliðið í Trier
Gamla borgarhliðið í Trier

 

 

Verkmenntaskóli Austurlands og Max Plankt Gymnasium í Trier í Þýskalandi hafa nýlega lokið tveggja ára samstarfsverkefni sem bar heitið: Landbúnaður á krossgötum. Hvernig breytum við heiminum? Verkefnið var kostað af Comeniusaráætluninni. Samstarfsskólar VA á Íslandi voru FAS og ME. Verkefnið hófst haustið 2011 og verkefnisstjóri var Þórður Júlíusson, kennari og skólameistari í VA. Þá haustönn var komið á tengslum milli 22 íslenskra nemenda og 23 þýskra jafnaldra þeirra. Í báðum löndum unnu hóparnir að verkefnum tengdum landbúnaði. Í lok febrúar 2012 fóru svo Íslendingarnir í heimsókn til Trier í Þýskalandi og dvöldu þar í 12 daga. Dagskráin var vörðuð heimsóknum í fyrirtæki, skoðunarferðum og samstarfi við þýsku nemana. Íslendingarnir dvöldu allir á heimilum jafnaldra sinna. Fararstjórar voru: Þórður Júlíusson úr VA og Hjördís Skírnisdóttir úr FAS.

Í lok ágúst 2012 komu svo þjóðverjarnir í hálfs mánaðar heimsókn til Íslands. Tekið var veglega á móti þeim í  FAS, VA og ME. Skipulag þessarar heimsóknar hvíldi mikið á reynsluboltanum Sigrúnu Árnadóttur, kennara í ME auk Þórðar og Hjördísar.

Þetta samstarf skilaði miklum árangri. Margt mætti upp telja sem þjálfast í slíku verkefni. Félagsfærni, sjálfstæði, öguð vinnubrögð, tungumálafærni, aukin þekking á háttum annarrar þjóðar auk betri skilnings á þema verkefnisins – landbúnaði og iðnaði tengdum honum. Verkefnið mun lifa lengi í huga nemendanna og reynslan af því skila sér í aukinni hæfni til lífstíðar.

Eftirfarandi texti er tekinn úr verkefnislýsingunni:

Landbúnaður: skortur og ofgnótt, neysluvenjur og mistök. Þetta gæti verið fyrirsögn á frétt í upphafi 21. aldar. Andstæðurnar sem valda neytendum, bændum og þjóðfélögum áhyggjum gætu ekki verið meiri. Fjöldi þeirra sem ástunda rangar neysluvenjur vex á heimsvísu. Í N-Ameríku og V-Evrópu deyr u.þ.b. ein milljón manna úr offitu á ári hverju. Þar á móti skapa hungur, vannæring og skortur á drykkjarvatni  mestu hætturnar í fátækustu löndunum. Næringin er orðin vandamál fyrir marga, of lítið, of mikið og of óhollt. Til að tryggja heilbrigða næringu er mælt með að rækta og framleiða lífræna tegundamiðaða fæðu á eins hagkvæman hátt og auðið er og koma henni á markaðinn í nauðsynlegu magni og á viðráðanlegu verði.

En hvernig virkar samspilið á milli landbúnaðar og neytenda? Hvaða markaðs- og pólitísku öflum eru bændur háðir? Matvælaiðnaðinum? Versluninni?

Hvernig skilgreinir landbúnaðurinn sig á heimaslóðum og á heimsvísu?

Þessari spurningu leitast þetta samstarfsverkefni við að svara. Það ber titilinn " Agrarwirtschaft im Wandel - Wie wir die Welt bewegen" - Landbúnaður á krossgötum -Hvernig breytum við heiminum?" Rannsóknarsvæðið nær til tveggja landa; Þýskalands og Íslands, sem tilheyra mismunandi loftslags- og landsvæðum Evrópu. Samhengið á milli náttúru, menningar og viðskiptasvæða í Þýskalandi og Íslandi er skoðað en einnig á heimaslóðum verður verkefnið greint og gert gagnsætt með eigin rannsóknarvinnu og heimsóknum í fyrirtæki. Nemendurnir vinna verkefnamiðað með hliðsjón af Evrópskum sjónarmiðum með það að markmiði að skilgreina hlutverk mannsins, sem ákvarðandi aðila í virðiskeðju landnýtingar þar sem hagkerfið og umhverfisvernd takast á.