Frá pallborðsumræðum
Laugardaginn 8. febrúar stóð VA fyrir málþingi í samvinnu við Fjarðaforeldra, foreldrafélag Nesskóla og Fjölskyldusvið
Fjarðabyggðar. Yfirskrift málþingsins var Tölum um það sem skiptir máli og var það haldið í Nesskóla í
Neskaupstað.
Á málþinginu flutti Guðbrandur Árni Ísberg sálfræðingur og höfundur bókarinnar Í nándinni erindi um
samskipti foreldra og barna, um mikilvægi nándar, innlifunar og góðra tilfinningatengsla. Jón Sigfússon framkvæmdastjóri Rannsókna og
greiningar flutti erindi um líðan ungs fólks í Fjarðabyggð í samanburði við landið allt og hvaða ráð foreldrar hefðu til að
fyrirbyggja neikvæða hegðun ungmenna.
Auk fyrirlesara voru básar þar sem hægt var að fræðast um ýmislegt sem tengdist forvörnum. Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar kynnti
starfsemi sína og það sem gert er í sveitarfélaginu til að vinna að forvörnum. Allir fimm grunnskólarnir í Fjarðabyggð voru með
kynningarbása um fíkniefnanotkun, tóbaksnotkun, áfengisnotkun og rafræn samskipti. Nemendur Verkmenntaskóla Austurlands fjölluðu um kynheilbrigði
og líðan nemenda í skólanum. Ungmennaráð Fjarðabyggðar og Ungmennaráð SAFT kynnti starfsemi sína. Listaakademia VA kom í
kaffihléi með söngatriði úr Litlu hryllingsbúðinni sem frumsýnd verður 22. febrúar n.k.
Í lokin voru pallborðsumræður þar sem fyrirlesararnir, forvarnarfulltrúi VA, Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar, lögreglan og
sálfræðingur heilsugæslunnar sem sér um ABG verkefnið á Austurlandi tóku þátt og svöruðu fyrirspurnum úr sal.
Málþingið var vel sótt en um 100 manns mættu og tóku þátt. VA leggur mikla áherslu á forvarnir og forvarnarstarf og var þetta
framlag skólans og annarra skipuleggjenda í því að efla foreldra og bæta líf og umhverfi nemenda skólans sem og annarra unglinga í
Fjarðabyggð.
Sjá myndir á http://www.va.is/is/skolatorg/myndasafn/forvarnarthing-i-fjardabyggd