Geðræktarmálþingið ,,Ég get, ég ætla, ég skal” var haldið í Nesskóla, Neskaupstað síðastliðna helgi. Málþingið skiptist í tvo hluta, á föstudaginn fyrir ungmenni á aldrinum 15 – 20 ára en öllum opið á laugardeginum.
Það voru forvarnarteymi VA, foreldrafélög VA og Nesskóla og starfsfólk sem stóðu fyrir málþinginu.
Á málþinginu voru frábær erindi. Þær Sylvía og Eva sálfræðinemar og þáttastjórnendur hlaðvarpsins Normið voru með frábært erindi um sjálfsþekkingu og valdeflingu og Beggi Ólafs sálfræðingur kenndi okkur frábærar leiðir til að verða betri í dag en í gær. Það voru síðan þau Óskar Sturluson og Helga Elísabet starfsfólk Fjarðabyggðar sem enduðu málþingið á erindi um félagsþjónustuna og barnavernd sem var afar áhugavert.
Á málþinginu var einnig undirritaður nýr samningur við SÚN um styrk til að halda forvarnartengd málþing næstu þrjú árin. Við erum SÚN afar þakklát fyrir stuðninginn. Einnig erum við þakklát öllum þeim sem lögðu leið sína á málþingið.