Í síðustu viku var afar vel heppnuð heilsuvika í skólanum. Fjöldi smærri keppna og viðburða fór fram ásamt fyrirlestrum og fræðslu.
Á mánudeginum fór fram æsispennandi Stingerkeppni í íþróttahúsinu og seinna um daginn flutti Sandra Björg Helgadóttir fyrirlestur um markmiðasetningu.
Á þriðjudeginum var stólaleikur og eftir hádegið var dagskrá í Egilsbúð þar sem nemendur spiluðu pool og borðtennis og kynntust boccia og skylmingum. Salóme var með bocciakennsluna og Pjetur brá sverðinu í skylmingunum við mikinn áhuga nemenda. Á meðfylgjandi myndum má sjá frá þessu. Deginum lauk síðan í íþróttahúsinu um kvöldið þar sem nemendur skemmtu sér í íþróttaiðkun.
Á miðvikudeginum var armbeygjukeppni og síðan bauð Salóme nemendum með sér í gönguferð en í henni var reyndar afar dræm þátttaka enda nemendur búnir á því eftir dagskrá dagsins á undan.
Á fimmtudeginum var öðruvísi keila og síðan átti að vera búbblubolti í íþróttahúsinu en vegna misskilnings var honum frestað til föstudagsins. Eftir hádegið kom Marteinn Lundi Kjartansson, gjaldkeri Hinsegin Austurlands og flutti afar áhugaverðan fyrirlestur fyrir nemendur um félagið og ýmis hinsegin og kynsegin málefni. Myndir frá fyrirlestrinum má sjá hérna í fréttinni.
Á föstudeginum var æsispennandi vítaspyrnukeppni milli nemenda og starfsfólks þar sem lið starfsfólks tapaði annað árið í röð. Það er ljóst að það þarf að æfa betur fyrir næstu keppni!
Síðar um daginn bauð nemendafélagið öllum nemendum í pizzuveislu í setustofunni og síðan lauk honum á búbbluboltanum í íþróttahúsinu.
Nemendafélagið ásamt tengliðunum Salóme og Berglindi Björk héldu utan um dagskránna og eiga þau öll hrós skilið fyrir afar vel heppnaða viku.