Á föstudaginn var barst skólanum góð gjöf. Afkomendur Jóns S. Einarssonar húsasmíðameistara færðu skólanum peningagjöf til kaupa á tækjum í bygginga- og mannvirkjadeild skólans í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns.
Jón tengdist sögu Verkmenntaskólans og samfélagsins alls órjúfanlegum böndum. Fljótlega eftir að hann flytur til Norðfjarðar árið 1945 tekur hann að sér að taka í próf nokkra smiði sem höfðu ekki full réttindi. Enn síðar tekur hann til við að mennta smiði, við Gagnfræðaskólann, síðar Iðnskólann og að lokum við Verkmenntaskólann. Mörg stórhýsi í bænum eru reist af Jóni, má þar nefna Fjórðungssjúkrahúsið og húsnæðið sem nú hýsir skrifstofur Síldarvinnslunnar.
Jón hafði það að leiðarljósi í sínu starfi með nemendum að tala við alla eins og jafningja og kom hann að menntun ansi margra smiða hér eystra.
Í tilefni af þessu var haldin stutt athöfn. Afkomendurnir voru viðstaddir athöfnina, ýmist á staðnum eða í gegnum Teams eins og alsiða er á þessum tímum. Við athöfnina flutti Jón Einar Marteinsson ávarp fyrir hönd afkomenda þar sem hann fjallaði um lífsferil afa síns og Jón Þorláksson, deildarstjóri bygginga- og mannvirkjagreinadeildar flutti ávarp fyrir hönd skólans. Jón Þorláksson kom m.a. inn á hvernig Jón S. Einarsson var örlagavaldur í hans lífi, hann hefði ætlað að guggna á kennslunni, daginn fyrir fyrsta kennsludaginn árið 1998. Eftir langt samtal við Jón á heimili hans um kvöldið hafi hann komið út með kennsluáætlun í höndunum, sem Jón gerði að mestu leyti fyrir hann, og fullur sjálfstrausts fyrir starfinu. Enda er hann enn í starfi, hann eigi því Jóni mikið að þakka. Í lok athafnar afhenti Jón Einar innrammað skjal til staðfestingar á gjöfinni.
Í lokin var tekin þessi glæsilega mynd af afkomendunum ásamt Jóni Þorlákssyni. Afkomendum eru færðar innilegar þakkir fyrir þessa glæsilegu gjöf og þann hlýhug sem skólanum er sýndur.