Í Verkmenntaskóla Austurlands er bryddað upp á merkilegri nýjung vikuna 3. – 7. júní. Þetta er samvinnuverkefni Vinnuskóla
Fjarðabyggðar og VA um kynningu á verknámi fyrir grunnskólanemendur. Allir þeir sem luku 9. bekk grunnskóla í Fjarðabyggð í vor og
skráðir eru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar, hefja vinnuna í Verkmenntaskóla Austurlands. Þar starfa þeir í hópum í
fjórum deildum skólans, málm-, tré-, hár- og rafdeildum undir leiðsögn kennara. Á verkstæðunum skapa þeir hluti s.s. ostabakka
úr tré og snaga úr málmi sem þeir eiga til minninga. Lokadagur vikunnar er svo uppskerudagur þar sem foreldrum og velunnurum er boðið.
Undirbúningur að þessu verkefni hefur staðið frá því að hugmyndin fæddist sl. vor í kynnisferð starfsfólks
Verkmenntaskóla Austurlands til Svíþjóðar. Fyrirtæki í Fjarðabyggð styðja við verkefnið fjárhagslega og er verkaskipting milli
aðila þessi: Verkmenntaskóli Austurlands skipuleggur verkefnið heldur utan um það og leggur til húsnæðið. Kennarar skólans
sjá um kennsluna og allt sem að henni lýtur. Sveitarfélagið Fjarðabyggð greiðir nemendum Vinnuskólans laun og skipuleggur ferðir
þeirra. Stuðningsaðilarnir greiða laun kennara, efniskostnað og ferðalög til og frá skólanum. Þau fyrirtæki eru Alcoa Fjarðaál,
Eskja, G. Skúlason, Launafl, Loðnuvinnslan, Síldarvinnslan og Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar.
Það er mikil áhersla á kynningu iðn- og tæknináms í landinu. Þar liggja tækifæri ungs fólks til náms og atvinnu.
Fjarðabyggð er mjög öflugt atvinnusvæði ekki síst m.t.t. starfa í iðnaði. Það er von þeirra sem að þessu standa að
þessi tilraun skili sér í meiri aðsókn í iðn- og tækninám á komandi árum.