Verkmenntaskóli Austurlands (VA) og Vinnuskóli Fjarðabyggðar hafa efnt til samvinnuverkefnis sem gefur nemendum Vinnuskólans kost á að kynna sér
iðnnám í VA í eina viku á launum í byrjun júní. Verkefnið er ætlað nemendum í Fjarðabyggð sem hefja nám
í 10. bekk að hausti.
Með því að nemendur vinni verkefni á verkstæðum skólans má ætla að þeir fá betri kynningu á iðnnámi.
Þar með verði þeir líklegri til að mennta sig til starfa sem henta t.d. í sjávar-, iðn- og tæknifyrirtækjum.
Þessa viku í Vinnuskólanum gefst nemendum kostur á að kynna sér það iðnnám sem þeir vilja og er kennt í VA. Nemendur
munu leggja stund á þá iðngrein í eina vinnuviku, 4 tíma á dag í byrjun júní. Í lok vinnuviku verður
uppskeruhátíð með sýningu á verkefnum nemendanna.
Í VA er hægt að stunda nám á 4 iðnbrautum, grunnnám málm- og véltæknigreina, grunnnám rafiðna, hársnyrtibraut og
grunnnám bygginga- og mannvirkjagreina. Í framhaldi er hægt að stunda nám í vélvirkjun, rafvirkjun og húsasmíði.
Fyrirtæki í Fjarðabyggð taka myndarlega þátt í verkefninu með fjárstuðningi. Án þess stuðnings hefði verkefnið
tæplega orðið að veruleika. Þessi fyritæki eru Alcoa Fjarðaál, Eskja, G.Skúlason, Loðnuvinnslan, Launafl, SVN og VHE
vélaverkstæði.