Nemendur við rústir hvalstöðvarinnar á Fögrueyri
Fimmtudaginn 21. nóvember héldu nemendur í SAG 383 í vettvangsferð til Fáskrúðsfjarðar, Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.
Í námsáfanganum er fjallað um sögu Austurlands og var tilgangur ferðarinnar að heimsækja athyglisverða sögustaði og söfn. Fyrst var
haldið út á Fögrueyri við Fáskrúðsfjörð og rústir þýsku hvalstöðvarinnar sem þar var reist árið
1903 skoðaðar. Þvínæst var ekið inn á Búðir og húsin sem tengjast sögu Frakka á staðnum skoðuð. Þar stendur
húsið Grund sem upphaflega var reist árið 1897 sem sjúkraskýli og eins er verið að endurreisa franska spítalann sem hóf móttöku
sjúklinga árið 1905. Eins er unnið að endurbótum á læknishúsinu sem reist var árið 1906. Þegar lokið var við að
berja húsin augum var haldið út að Krossum þar sem 49 franskir og belgískir sjómenn liggja grafnir. Þá var röðin komin að
indælu vöfflukaffi sem Sigrún Ragnarsdóttir bauð upp á.
Haldið var til Reyðarfjarðar og Stríðaárasafnið heimsótt.
Þar voru stríðsminjarnar skoðaðar af athygli enda stríðsárin áhugavert tímabil í austfirskri sögu. Á Eskifirði var
byrjað á að heimsækja Sjóminjasafn Austurlands og Randulffssjóhús sem er gott dæmi um síldveiðistöð frá
síldveiðitíma Norðmanna á síðari hluta 19. aldar. Þá var haldið út með Reyðarfirði að norðanverðu, staldrað
við neðan við Helgustaðanámuna og við rústir hvalstöðvarinnar á Svínaskálastekk. Síðan voru skoðaðar
aðstæður á Útstekk við Stóru-Breiðuvík en þar var höfuðverslun Austfirðinga allan einokunartímann.