Nokkur orð frá leikstjóra
Listaakademía Verkmenntaskóla Austurlands er magnað fyrirbæri. Þetta er valáfangi sem er opinn öllum nemdum skólans og þar safnast saman krakkar sem eru meira en reiðubúin að hugsa út fyrir kassann, normið sitt.
Fyrr í vetur kom upp sú hugmynd að setja upp söngleikinn We Will Rock You sem byggður á lögum hljómsveitarinnar Queen. Mér fannst það mjög metnaðarfull og djörf hugmynd. Það segir manni margt að krakkarnir réðust ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því tónlistin frá Queen er frábær og svo er boðskapur verksins ekki síðri. Í heimi þar sem allt er eins er ekki pláss fyrir ólíkar og skrítnar hugmynd, hvað þá öðruvísi tónlist en sú sem er í boði heimsveldisins sem ræður öllu.
Eftir áramótin hófust á æfingar af krafti. Krakkarnir fóru svo regluega á kóræfingar samhliða leikæfingum og hljómsveitin, sem er bæði skipuð nemendum skólans og atvinnumönnum, byrjaði að æfa. Fljótlega fóru einsöngvarar að mæta á hljómsveitaræfingar líka. Svanlaug Aðalsteinsdóttir kennari sá síðan um framkvæmdarstjórn, hár, smink og búningagerð. Hún fékk þá nemendur sem ekki stóðu á sviðinu til að hjálpa sér í því. Vinnan þeirra var ekki minni en þeirra sem vinna á sviðinu. Það er mjög mikilvægt að það komi fram því leikhús er ekki bara þeir sem standa á sviðinu að leika og syngja. Álagið á öllum krökkunum jókst alltaf jafnt og þétt. Þeir héldu áfram að bæta sig og stíga lengra frá þægindarammanum sínum.
Þó svo ég sé skrifaður fyrir þýðingunni og leikgerðinni þá eiga krakkarnir stóran hlut í sköpunarferlinu. Ég sagði þeim í upphafi að ég vildi að þeir tækju virkan þátt og að hugmyndir þeirra fengju vængi. Margar þeirra urðu að veruleika en auðvitað þurfti ég að segja nei við mörgum hugmyndum þeirra. Eiginlega alltof mörgum, sem er auðvitað leiðinlegt en samt mjög jákvætt
Þegar allt var að smella saman og frumsýningarvikan var gengin í garð urðum við fyrir miklu áfalli. Stefán Már, einn af okkar ástkæru samstarfsfélögum og kennari lést skyndilega. Stefán var smíðakennari við skólann og hafði haft umsjón með leikmyndarsmíðinni í söngleiknum okkar. Hann tók mér og hugmyndum mínum með opnum örmum með áhuga og kærleik og ég vissi eftir okkar stutta fund að hugmyndin mín væri í góðum höndum. Þökk sé Stefáni, Eyþóri smíðakennara og nemendum þeirra varð leikmyndin nákvæmlega eins og ég ímyndaði mér hana. Takk.
Vegna fráfalls Stefáns var ákveðið að fresta frumsýningunni um eina viku. Að þurfa að fresta sýningu, hvað þá frumsýningu, er aldrei auðvelt. Krakkarnir tóku á þessu með ótrúlegum kærleik, ást og skilning. Þeir ákváðu að tileinka Stefáni Má sýninguna sem sýnir úr hverju krakkarnir eru gerðir. Með hjartað á réttum stað.
Það kom svo bersýnilega í ljós á frumsýningunni þar sem allir blómstruðu og opnuðu hjarta sitt. Það sem meira er og mér finnst þetta skipta mestu máli. Þau komu á óvart. Þau komu áhorfendum, sínum nánustu og mest af öllu sjálfum sér á óvart. Það er sigur.
Ef þið viljið eiga skemmtilega og góða kvöld stund þá mæli ég eindregið með því að þið mætið á morgun (1. apríl) annað hvort kl. 15:00 eða 20:00 og hlægið eða grátið, hafið gaman og njótið tónlistarinnar sem er í hæsta gæðaflokki. Að lokum langar mig að ýta á takktakkann og segja takk. Takk fyrir mig!
Benedikt Karl Gröndal