Í ljósi fyrirhugaðra breytinga og þeirra breytinga sem hafa orðið á Söngkeppni framhaldsskólanna undanfarin ár hafa nemendafélög Framhaldsskólans á Laugum, Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, Menntaskólans á Tröllaskaga og Verkmenntaskóla Austurlands tekið þá ákvörðun að fylgja fordæmi Þórdunu, nemendafélags Verkmenntaskólans á Akureyri og draga sig úr keppninni þetta árið. Með þessari ákvörðun erum við að láta í ljós óánægju okkar með fyrirhugaðar breytingar sem verða innleiddar í keppnina í ár. Breytingarnar fela það í sér að til þess að eiga möguleika á því að taka þátt í keppninni þarf hver skóli að senda inn upptöku af sínu atriði. Það er síðan dómnefnd sem mun fara yfir atriðin og velja 12 atriði sem munu taka þátt í aðalkeppninni. Hver skóli borgar 40.000 kr fyrir það að senda inn upptöku ásamt því að fá aðgang að æfingahelgi fyrir keppninna í Reykjavík. Þeir skólar sem verða síðan valdir áfram í lokakeppnina þurfa að borga auka 30.000 kr í þátttökugjald og skuldbinda sig auk þess til að selja 20 miða til nemenda sinna á aðalkeppnina.
Augljóst er að hið nýja fyrirkomulag kemur sér sérstaklega illa fyrir litla skóla á landsbyggðinni. Fyrir nemendafélög með takmarkaðan fjárhag þá er þátttökugjaldið alltof hátt, sérstaklega í ljósi þess að við séum einungis að greiða fyrir það að senda upptöku af atriðinu og aðgang að æfingahelginni. Við erum mjög ósátt með það að ekkert tillit sé tekið til þess gríðarlega mikila aukakostnaðar sem að lendir á nemendafélögum skóla af landsbyggðinni við það að senda keppendur tvisvar til Reykjavíkur bæði á æfingahelgina og aðalkeppnina og síðan áhorfendur með keppendum á aðalkeppnina sjálfa. Með þessu fyrirkomulagi sitja skólar af höfuðborgarsvæðinu og skólar af landsbyggðinni ekki við sama borð og skólum er mismunað eftir landfræðilegri staðsetningu.
Einnig erum við mjög ósátt með það að einungis 12 keppendur fá tækifæri til þess að stíga á svið og koma fram í sjónvarpi. Við teljum þetta fyrirkomulag ekki stuðla að því að keppnin verði stökkpallur fyrir unga og efnilega listamenn til að koma sér á framfæri eins og markmið keppninnar ætti að vera.
Við sjáum ekki hag okkar í því að taka þátt í söngkeppni framhaldsskólanna þetta árið og munum við ekki endurskoða ákvörðun okkar fyrr en viðeigandi breytingar verða gerðar.
Fyrir hönd eftirtalinna nemendafélaga
Eva Sól Pétursdóttir
Formaður Nemendafélags Framhaldsskólans á Laugum
Haukur Orri Kristjánsson
Formaður Trölla, nemendafélags Menntaskólans á Tröllaskaga
Sigurður Ingvi Gunnþórsson
Formaður Nemendafélags Verkmenntaskóla Austurlands
Sævar Örn Kristjánsson
Formaður Nemendafélags Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu