Þann 11. maí sl. var ritað undir yfirlýsingu Verkmenntaskóla Austurlands og Mennta- og barnamálaráðuneytisins um að ráðast í forathugun á stækkun á verknámshúsi skólans.
Verkmenntaskóli Austurlands er eini verknámsskólinn á Austurlandi og býður skólinn upp á mjög fjölbreytt iðn- og tækninám. Til þess að skólin nái að vaxa og þróast í takt við þarfir samfélagsins þarf húsnæði hans að styðja vel við starfið. Verkmenntaskólinn hefur undafarin ár búið við talsverð þrengsli í húsnæði sem hýsir verknámsbrautir skólans.
Með yfirlýsingunni verður ráðist í forathugun á stækkun núverandi verknámshús og mun ráðuneytið verða skólanum innan handar við þá vinnu. Forathugun er nauðsynlegur undanfari þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við byggingu.
Það voru þeir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Hafliði Hinriksson, skólameistari VA, og Jón Björn Hákonarson, formaður skólanefndar VA sem rituðu undir yfirlýsinguna í verknámshúsi VA í dag. Ráðherra notaði einnig tækifærið fyrir undirskriftina og kynnti sér húsnæði og starfsemi Verkmenntaskólans.